Námskeiðið er fyrir þá sem hafa lokið grunnnámskeiðinu Trérennsli I (eða hafa grunnkunnáttu í trérennsli).
Grunnnámskeiðið fór vel í undirstöðuatriðin en á þessu framhaldsnámskeiði gefst betri tími til að kafa aðeins dýpra í þetta skemmtilega áhugamál.
Markmiðið er að byggja ofan á grunninn, ná betri tökum á rennijárnunum og skerpa á tækninni.Andri byrjar tímana á sýnikennslu/fræðslu og hverju verkefni er skipt niður í hæfilega hluta.
Þátttakendur þurfa ekki að taka neitt með sér. Þeir fá til afnota frábæra rennibekki í fullri stærð, úrval af rennijárnum, aukahlutum, sandpappír og yfirborðsefnum.
Þú munt læra
Nokkur verkefni verða kennd á námskeiðinu*, svo sem:
:• Diskur, 20-30cm að þvermáli.
• Skál með “lifandi brún”, þar sem börkurinn (eða útlínur trésins) myndar efri brún skálar.
• Ferhyrnd skál/diskur.
• Hjámiðjurennsli, þar sem miðjuás efniviðs er færður til og lokaform verða oft ansi áhugaverð.
• Einfaldir vasar.
• Box með loki.
• Árstíðabundin verkefni (páskar, sumar, jól…).
*það getur verið breytilegt hvaða og hversu mörg verkefni eru tekin fyrir á hverju námskeiði, fer það að mestu eftir úrvali efniviðs hverju sinni.
Einnig ætti að vera svigrúm til að vinna frjálst inn á milli ef áhuginn beinist að ákveðnum verkefnum.
Efniviður í þau verkefni sem kennd eru, er innifalinn. Efnivið í frjáls verkefni þurfa þátttakendur að útvega, fjölbreytt úrval af efnivið er til dæmis hægt að kaupa í versluninni.
Góð brýnsluaðstaða er á staðnum. Áhersla er lögð á að þátttakendur læri að brýna rennijárnin og sjái um að brýna sjálfir eftir þörfum.
Aðeins 4 nemendur eru á hverju námskeiði og því fá allir góða athygli og frelsi til að vinna á sínum hraða.
Leiðbeinandi: Andri Snær Þorvaldsson.
Nánari upplýsingar
Kaffi og með því sem og bækur og gott andrúmsloft einkennir hóp sem hittist reglulega á vönduðu námskeiði í handverki.
Nýir öflugir rennibekkir sem ráða við stærri verkefni eru nú uppsettir í aðstöðunni tli að geta leyst framhaldsverkefni á þessu námskeiði.
Einnig nýtt úrval af patrónum og íhlutum til að læra mismunandi tækni við bekkinn.
Vinnustakkar, öryggisgleraugu og hlífar á alla á staðnum.
Námskeiðið er alltaf á mánudögum og miðvikudögum frá kl. 17-20 í þrjár vikur í röð, þeir sem vilja halda áfram á þessu námskeiði skrá sig þá aftur og halda áfram að þróa sig í þeim verkefnum sem henta þeim.
Forföll tilkynnist með góðum fyrirvara og við leitumst við að bjóða í staðin þátttöku á næsta námskeiði þegar forföll vegna óviðráðanlegra orsaka koma upp (endurgreiðum ekki).
Námskeiðið skilar 12% afslætti til þátttakenda af öllum renniverkfærum og 5-8% af rennibekkjum fram yfir námskeiðið, nóg er að nefna skráninguna í verslun okkar.