Vörulýsing
Lýsing :
Námskeiðið er hugsað fyrir byrjendur þar sem leitast er við að kenna nemandanum grunnatriði tifsögunar á sem auðveldastan hátt. Nemandinn kynnist mismunandi gerðum af tifsögum og muninum á sagarblöðum sem er í sjálfu sér heill heimur út af fyrir sig og er einn aðal þátturinn í að vel takist í tifsöguninni. Nemandinn reynir sig verklega á mismunandi gerðum af tifsögum og vinnur smáhluti úr margvíslegum efnum eins og mismunandi viðartegundum bæði hörðum og mjúkum, málmum eins og kopar eða messing, leðri, plasti og tauefnum. Segja má að tifsögun sé heillandi handverk sem landinn hefur ekki enn sem komið er tileinkað sér sem skildi. Tifsögun er sjálfsagt að nýta með útskurði, tálgun, kopar- og silfursmíði og að ógleymdri trérennismíði svo eitthvað sé nefnt. Námskeiðið er um 6 klukkustundir að lengd með frjálsum hléum til að nemendur geti hvílt sig og nært, spjallað saman, grúskað í bókunum og öllu dótinu í búðinni og að sjálfsögðu verslað.
Námskeið Handverkshússins eru styrkhæf hjá flestum fræðslusjóðum stéttarfélaga. Þátttakendur fá viðurkenningarskjal fyrir þátttöku sína og skráðar kennslustundir.